Skip to main content

Ráðstefnuborgin Reykjavík undirritar samstarfssamning við HÍ, HR og LHÍ

Þann 9. apríl var undirritað samstarfssamkomulag milli Ráðstefnuborgarinnar Reykjavíkur (Meet in Reykjavík) og Háskóla Íslands (HÍ), Háskólans í Reykjavík (HR) og Listaháskóla Íslands (LHÍ). Markmiðið með samkomulaginu er að fjölga alþjóðlegum akademískum fundum og ráðstefnum á vegum háskólanna hér á landi. Rektorar háskólanna þriggja Jón Atli Benediktsson rektor HÍ, Ari Kristinn Jónsson rektor HR og Fríða Björk Ingvarsdóttir rektor LHÍ undirrituðu samkomulagið ásamt Þorsteini Erni Guðmundssyni framkvæmdastjóra Meet in Reykjavík og Degi B. Eggertssyni borgarstjóra. Meet in Reykjavík mun aðstoða starfsfólk háskólanna og samstarfsaðila þeirra við undirbúning, upplýsingaöflun og tilboðsgerð fyrir alþjóðlega fundi og ráðstefnur sem tengjast háskólunum með einhverjum hætti. Þá mun Meet in Reykjavík veita upplýsingar og halda kynningar um funda- og ráðstefnuaðstöðu háskólanna til alþjóðlegra samtaka og skipuleggjanda funda og ráðstefna.